Höfundarréttarsamningur
1. gr.
Rekstraraðili starfrækir vefinn KOMPÁS sem er þekkingar- og fræðsluvefur þar sem viðskiptavinum er gert kleift að sækja sér efni, verkfæri og þekkingu í tengslum við ákveðin málefni.
2. gr.
Höfundur er hver sá höfundur efnis, verkfæris, þekkingar sem lagt er fram á KOMPÁS vefnum og stendur þar til boða áskrifendum hans. Aðilar sem leggja fram slíkt efni, sem ekki er samið af þeim sjálfum, geta ekki kallast höfundar í þeim skilningi. Höfundur getur þó verið lögaðili enda tilheyri slíkt framlagt efni sannanlega því skv. almennum reglum höfundaréttar.
3. gr.
Höfundur skal afhenda skjal, verkfæri eða annað efni til rekstraraðila til birtingar á vef þess og rekstraraðili skal birta það í samræmi við höfundalög nr. 73/1972 og gæta þess að réttur höfundar sé ekki skertur nema með þeim hætti hvað varðar efni þessa samnings. Höfundur samþykkir að rekstraraðili birti efni höfundar og fái efnið um leið til afnota að því marki sem nauðsynlegt er til birtingar á vegum KOMPÁS. Höfundur getur óskað þess að heitið KOMPÁS sé skráð sem höfundur.
4. gr.
Efni, verkfæri eða þekking getur verið með hvaða hætti sem er. Ekki eru gerðar um það form – eða efniskröfur nema að því leyti að það snerti umræddan málaflokk. Áður en efni höfundar er birt á vef KOMPÁS er rekstraraðila heimilt að leggja það fram fyrir rýnihóp rekstraraðila sem einnig má koma með sínar ábendingar, lagfæringar og hugmyndir telji hann þörf á. Efni skal einnig aðlagað framsetningu og útliti KOMPÁS vefsins. Höfundur skuldbindur sig til þess að hlíta reglum rekstraraðila um framsetningu, breytingar og útlit efnis.
5. gr.
Þegar efni höfundar hefur verið birt á vef KOMPÁS er það orðið aðgengilegt viðskiptavinum rekstraraðila án þess að höfundur eigi rétt á sérstakrar greiðslu fyrir birtingu þess. Viðskiptavinir geta þá sótt efni höfundar og nýtt í sína þágu, t.d. þekkingaröflunar, gagnaöflunar eða hvers annars sem viðskiptavinur óskar. Viðskiptavinum er heimilt að aðlaga og bæta efnið að sínum þörfum og starfsemi. Höfundur getur ekki bannað notkun og breytingu efnis síns nema um algera afskræmingu þess og vanvirðingu við höfund er að ræða en skal þá nafn höfundar fjarlægt af skjalinu. Rekstraraðili skal sjá til þess að viðskiptavinir samþykki þau skilyrði áður en efni höfunda er látið af hendi.
6. gr.
Rekstraraðili áskilur sér réttinn til þess að breyta og bæta birt efni teljist þörf á því. Aðstæður sem geta leitt til breytinga efnis eru t.d. nýjar kenningar, ný fræði, uppfinningar, tíðarandi o.fl. KOMPÁS mun birta nafn höfundar á vefsíðunni og á efni eftir því sem því verður við komið. Sé hins vegar unnið nýtt efni með stoð í efni höfundar skal hið nýja verk óháð höfundarétti að hinu eldra.
7. gr.
Höfundur getur, hvenær sem er, óskað þess að efni hans verði ekki lengur birt á vef KOMPÁS. Rekstraraðili skal fjarlægja efnið af vef sínum innan mánaðar frá því að krafa höfundar þess efnis bárust til vitundar starfsmanna rekstraraðila. Telji rekstraraðili efnið ekki eiga erindi á vef sinn lengur má rekstraraðili fjarlægja það af vefnum.
8. gr.
Samningur þessi gildir til þriggja ára og framlengist samningurinn sjálfkrafa um eitt ár í senn verði honum ekki sagt upp skriflega með 3 mánaða fyrirvara fyrir þann tíma. Samningur þessi tekur gildi við undirritun eða við aðra formlega staðfestingu samningsaðila á skilmálum hans.
9. gr.
Mál sem rísa kunna út af samningi þessum eða samskiptum aðila vegna hans skal reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.